Monday, July 07, 2008

Fullreynt í fjórða sinn

Vandræði mín í lestunum héldu áfram í morgun á leið í skólann. En ég var ekki einn um þessi vandræði, allir hinir farþegarnir í lestinni lentu í sömu erfiðleikum. Skólinn byrjar klukkutíma seinna á mánudögum, þ.e. kl. 10 svo ég ákvað að nota tækifærið og sinna bankaviðskiptum áður en skólinn hæfist. (Ég er að hugsa um að skipta um banka vegna þess að Búnaðarbankinn minn ætlar að sameinast SPRON og það líkar mér ekki!!!! Nei, nei, þurfti að borga fyrir tangóhátíðina í Sitges.)

Ég lagði af stað á sama tíma og venjulega, kl. 8:30 og náði metró kl. 8:40. það er skemmst frá því að segja að tvisvar á leiðinni stoppaði lestin og hreyfðist ekki í hálftíma í hvort skipti. Svo ferðin, sem venjulega tekur 15 mínútur tók klukkutíma og korter!! Lestin var troðfull (mun fleira fólk en venjulega) og frekar heitt eins og þið getið ímyndað ykkur. Sem betur fer hafði ég tekið ókeypis dagblað með mér þegar ég fór niður í lestina og gat því slegið þrjár flugur í einu höggi; drepið tímann með lestri þess, æft mig í spænsku og notað það sem blævæng. Þad var reyndar dálítið erfitt að hagræða blaðinu í þrengslunum, en það gekk.

Klukkan var orðin 9:55 þegar ég komst aftur upp á yfirborð jarðar, bankaviðskiptin voru úr sögunni og ekkert annað að gera en drífa sig í skólann!

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Börnunum þínum finnst uppákomur í almenningsfarartækjunum greinilega spennandi svo að þú verður að segja frá gærkvöldinu líka, en þú þrjóskast við og tekur ekki leigubíla.
Stella

6:31 AM  

Post a Comment

<< Home