Thursday, July 13, 2006

Ochos við olíuljós


Hvað er betra en að vera í sumarfíi hér í Kaupmannahöfn þegar sólin skín? Djasshátíð og góða veðrið setja svip sinn á bæinn þessa dagana. Við njótum þess að vera í fríi og látum sem við sjáum ekki flutningskassana sem standa galtómir og samanbrotnir, upp við vegg í forstofunni.

Við höfum m.a. afrekað að príla upp í turn Frelsarakirkjunnar, tröppurnar eru 400 og þær efstu 150 utanáliggjandi, útsýnið alveg frábært. Kristinn fór í gönguferð um Íslendingaslóðir með öðrum íslenskum túrhestum, undir leiðsögn Guðlaugs Arasonar. Við fórum í dag í könnunarleiðangur (og sólbað) í Amager strandpark og viðruðum bílinn af því tilefni. Flott strönd en við erum sammála um það að halda okkur frekar við ströndina í Carlottenlund, hún er svo heimilisleg og fljótlegt að hjóla þangað.

Við höfum að sjálfsögðu dansað tangó nú sem endranær. Við höfum farið á milongur undir berum himni við Sívalaturn og í Fælledparken. Hellurnar við Sívalaturn eru ansi ójafnar en maður venst ójöfnunum og það er mjög notalegt að dansa á trépallinum í Fælledparken. Kaupmannahafnarborg stendur fyrir milongunni í Fælledparken og henni lýkur kl. 22, þá eru ljósin slökkt og fjarlægð, sem og græjurnar (ekki leyfi fyrir samkundunni eftir það). En áhugasamir tangódansarar voru ekki af baki dottnir í gærkvöldi og einn lagði bara bílnum sínum upp við pallinn, opnaði allar dyr á faratækinu og setti bílgræjurnar á fullt. Það leyndust einnig olíuluktir í skottinu, svo þeim var skellt upp í staðinn fyrir rafmagnsljósin og þar með var hægt að dansa áfram! Við höfum reyndar staðfestan grun um að þessi leikur hafi verið leikinn oft áður.

2 Comments:

Blogger Hafrún Ásta said...

Jæja það er aldeilis stuð á ykkur en það fer að styttast í að við fáum ykkur heim. Hlökkum til að sjá ykkur.

5:29 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Flott það skuli enn vera til svona bílar með olíuluktum og öllum græjum! Gaman að sjá að þið getið notið sumarsins þrátt fyrir fluttningskassana ... sjáumst bráðum ...

7:49 PM  

Post a Comment

<< Home