Tuesday, July 08, 2008

Uppákomur 5 og 6 í TMB (Transports Metropolitan de Barcelona)

Uppákoma 5

Þad var greinilega ekki fullreynt í fjórða sinn! Í gær fór ég á milongu í miðbænum og kl. 12 á miðnætti tók ég síðustu lest heim. Þegar ég var nýlega sestur varð ég var við að maður á fertugsaldri sem sat í næstu röð var að skamma ungan mann um tvítugt, sem stóð á milli okkar. Sá tvítugi var að reykja en slíkt er stranglega bannað í lestunum og reyndar á öllu metrósvæðinu. Reykingamaðurinn lét sér fátt um finnast og sá eldri skipaði honum af sífellt meiri ofsa að drepa í sígarettunni. Skyndiega stökk hinn sjálskipaði vörður laganna á fætur, gaf sígarettupiltinum á kjaftinn og settist svo aftur. Rettupiltinum brá en hélt þó áfram að reykja. Þá spurði sá sjálskipaði, og stóð upp mjög ógnandi, hvort hann vildi fá annað högg. Það vildi rettugæinn ekki og drap í á gólfinu. Hinn sjálskipaði vörður reykingabannsins settist ánægður með unnið verk. Í því kom annar ungur maður gangandi fram lestina, greinileg vinur rettudrengsins, og spurði hann hvað um væri að vera. Hann fékk að vita af högginu og “med det samme” ákváðu Þeir að jafna um þann sjálskipaða. Upphófust nú mikil slagsmál með höggum og spörkum og hrópum og köllum hræddra farþega sem sumir forðuðu sér út, en lestin hafði stoppað við næstu stöð. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að hoppa út en mér var illa við það vegna þess að þetta var síðasta lest heim! Ég hugsaði með mér að á meðan þetta væri ekki verra en á íslensku sveitaballi, engir hnífar á lofti, væri mér óhætt og sat áfram. Sá sjálskipaði fór halloka í fyrstu en skömmu eftir að lestin stansaði náði hann yfirhöndinni og tókst að hrekja andstæðingana út úr lestinni. Í því lokuðust lestardyrnar, allt féll í ljúfa lóð og lestin hélt áfram för sinni. En mér var svo mikið um þetta að ég gleymdi næstum að fara út þar sem ég átti að skipta um lest og þá hefðu Danir legið í því af því þetta var síðasta lest heim. En heim komst ég í heilu lagi og ná­ði að hvíla mig fyrir næsta rugl í Metró.

Uppákoma 6

Ferðin í skólann í morgun gekk áfallalaust en á leiðinni heim tók ég lest í ranga átt og áttaði mig ekki á því fyrr en ég var kominn 6 stöðvar í öfuga átt! Ég fór út og tók lestina til baka og þurfti að fara 13 stöðvar vegna þess að í upphafi ætlaði ég að fara 7 stöðvar í hina áttina. Rétt áður en ég lagði af stað í öfuga átt hafði ég verið að leiðbeina enskum túrista hvernig hann ætti að komast á ákveðinn stað með lestinni, í hvaða átt hann ætti að fara og hvar hann ætti að skipta um lest. Á leiðinni til baka velti ég því fyrir mér hvar aumingja maðurinn væri staddur, kannski er hann enn að reyna fylgja leiðbeiningum mínum og er rammvilltur!

Ég tel mig reyndar vera orðinn sérfræðing í Metró Barcelóna og skil ekki hvernig svona lagað getur gerst. Kannki er það mataræðið hérna sem gerir mig svona viðutan eða eitthvað sem ég drekk!

1 Comments:

Blogger Freyja said...

Vá þetta er aldeilis!! Það er meira að það er fjör í almenningssamgöngum á Spáni. Passaðu þig nú að lenda ekki í slasmálum.

7:37 PM  

Post a Comment

<< Home