Friday, June 16, 2006

Stella í orlofi

Jú, jú við erum búin að vera í orlofi síðan í ágúst á síðasta ári, en nú er ég (Stella) og reyndar við bæði, búin í náminu. Var í síðasta prófinu í gær og fékk einhverja gamalkunnuga frelsistilfinningu yfir próflokunum. Við förum á tangóhátíð í Svíþjóð í næstu viku, en síðan ætlum við að njóta sumarsins hér, áður en við siglum til Íslands (frá Bergen þann 1. ágúst). Væntanlega förum við frá Kaupmannahöfn í kringum 26. júlí.

Hér hefur verið sól og mikill hiti undanfarna daga, og það er ekki að spyrja að því, fólk byrjar að kvarta yfir hitanum um leið og hann fer yfir 22 - 23 gráður. Reyndar fór hitinn víst upp fyrir 30 gráðurnar og nýju járnbrautarteinarnir þöndust of mikið út, svo að það þarf að gera við þá, skera stykki úr þeim með jöfnu millibili. Það virðast vera stöðug vandræði hjá Bane Danmark, úr sér gengnir teinar, vandræði vegna kulda og síðan vandræði vegna hita með tilheyrandi seinkunum. Þegar síðan kviknaði í vagni í lestargöngunum undir Stórabelti, og varð að nota sömu göngin fyrir lestir í báðar áttir, þá var þolinmæðin þrotin hjá farþegum: "Iss þeir finna bara alltaf upp nýjar og nýjar afsakanir" svaraði einn aðspurður.