Thursday, April 27, 2006

Stella lenti í blandara

Við keyptum okkur einhverskonar blandara eða töfrasprota í gær. Nú getum við blandað, hakkað og þeytt, enda er tækið með sérstökum turbo takka. Í blaðinu í dag kom svo þessi sorglega frétt: Stella lenti í blandara...

Sunday, April 23, 2006

..og kýrnar leika við hvurn sinn fingur

Hér var kúnum hleypt út í dag. Borgarbúar gera sér ferð í sveitina til að fylgjast með rassaköstunum og vorgleðinni sem grípur kýrnar eftir heils vetrar inniveru. 1700 manns voru mætt á eitt býlið, en eitthvað var talað um økologiskar kýr, svo að kannski fá þessar venjulegu alls ekki að fara út.
Við hjónin fórum að dansa tangó um helgina, á Nødebokro á Norður Sjálandi á föstudaginn, hljómsveitin Tangarte spilaði og við hittum þar meirihlutann af ferðafélögunum okkar frá Argentínuferðinni og horfðum á rejselederen okkar sýna dans. Kvöldið eftir ákváðum við svo á síðustu stundu að drífa okkur til Helsingborgar þar sem sama hljómsveitin spilaði á stærsta tangóballi ársins þar. Og þá hittum við sænsku ferðafélagana okkar þrjá. Skemmtileg tangóhelgi og gaman að hitta ferðafélagana aftur. Í dag hefur dagurinn svo verið nýttur að mestu í lestur og verkefnaskrif og við létum okkur nægja að sjá kýrnar í sjónvarpinu.

Wednesday, April 19, 2006

....komið

Já vorið var dálítið lengi á leiðinni, en nú er það komið. Sólskin og gróðrarskúrir til skiptis en samt sem áður situr haustlaufið ennþá fast á runnunum hérna úti og nýtt lauf ekki komið í ljós ennþá.
Á föstudaginn langa brunuðum við yfir brúna til Svíþjóðar, eftir að hafa skilað Freyju á flugvöllinn. Heimsóttum Kristínu á Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg og hún fékk síðan að koma heim á laugardag, laus við brunn og slöngur. Gott að sjá hvað hún er þó hress og búin að koma sér vel fyrir í nýju íbúðinni þrátt fyrir veikindi og meðferðartarnir. Við byrjuðum svo aftur í tangótímum hjá Mettu og Martin í dag, en þau eru nýkomin frá því að kenna tangó í Kína.

Monday, April 03, 2006

Vorið er ....



Vorið er á leiðinni, það er enginn vafi á því. Hitinn hefur hækkað og fugla- söngur aukist. Haustlitirnar eru þó ríkjandi víða eins og sjá má á þessum myndum sem teknar voru í kvöld fyrir utan húsið okkar. Haustlaufið féll aldrei af sumum trjánum svo nú verður gaman að sjá hvort það hopar fyrir nýju laufi á næstunni.


Við fengum góða gesti um helgina. Fyrst kíkti Jóna Finndís inn á föstudagskvöldið, en hún var á leið á stjórnarfund í Hróarskeldu. Hana vantaði að vísu fundarhamar, en hún átti að stjórna fundinum. Ekki gátum við bætt úr því en bentum henni á að gera bara eins og Krútsjof forðum, fara úr öðrum skónum og nota hann sem fundarhamar. Á laugardagskvöldum komu íslenskir tangóvinir í mat, hjón sem eru flutt tímabundið til Köben. Svo nú verðum við að kynna þeim tangólífið hér. Áætlað að byrja næsta föstudagskvöld með því að fara á Tingluti.