Monday, November 28, 2005

Aðventan



Þá er aðventan gengin í garð og komin aðventuskreyting á Emdrupvej. Skreytingin er einföld og síbreytileg en hún á það til að hverfa að hluta vegna þess að hún er gerð úr piparkökum og eplum. Ástæða til að festa hana á mynd þegar hún er í þokkalegu formi.

Friday, November 25, 2005

Hinn staðreyndahelmingurinn!

1. Mér finnst gott að borða og drekka, en sem betur fer heldur konan mín aftur af mér annars væri ég orðinn hnöttóttur og með lifrarbólgu.

2. Ég er heimakær, en hef þó gaman af að ferðast til landa þar sem hægt er að borða góðan mat og drekka góð vín án þess að fara á hausinn.

3. Ég fæ mér alltaf ís med drys þegar ég fæ mér ís í Danmörku og Crema Catalana í eftirrétt þegar ég fer á veitingahús, ef það er í boði.

4. Ég hef gaman af að ganga um borgir, stoppa helst ekki (nema til að borða og drekka), en um leið og ég er kominn út í náttúruna vil ég helst leggjast niður á grasbala og horfa upp í skýin.

5. Ég hef gaman af því að elda mat.

Kristín klukkaði okkur!

Fimm staðreynir um sjálfa mig (Stella)

Númer eitt: mér þykir hafragrautur góður og borða hann helst á hverjum morgni með sesam- og sólblómafræjum og rúsínum.

Númer tvö: morguninn er minn uppáhaldstími, hann er svo fullur af ró og fyrirheitum.

Númer þrjú: ég elska að lesa, dagblöð, skáldsögur, aðrar sögur og skólabækur, næstum hvað sem er.

Númer fjögur: ég man oftast ekki það sem ég les.

Númer fimm: ég skil dönsku ágætlega en mér finnst danir ekki skilja hana alltaf, a.m.k. ekki þegar ég tala hana.


Wednesday, November 23, 2005

Sólin skín!


Það hefur kólnað, en sólin heldur samt áfram að ylja okkur dag eftir dag. Veðurfræðingar eru þó að hóta því að á næstu dögum muni fara að blása og rigna, jafnvel að snjóa. Við eigum að minnsta kosti að búa okkur undir slyddu. Ekki svo að skilja að það hræði okkur mörlandana en það er bara svo miklu notalegra að hjóla í stillu og sólskini.

Aðalgötur bæjarins eru komnar í jólaskrúða og njóta sín vel þegar fer að skyggja, sérstaklega Nýhöfnin. Ein verslunargatan sker sig þó úr og er þó ekki á því að punta sig fyrir jólin, en það er Nørrebrogade. Þar er ekki samstaða meðal kaupmanna um götuskreytingar og þess vegna heldur hið daglega líf áfram þar eins og engin jól séu á næsta leiti. Margir kaupmenn þar eru múslimir og kann það að vera skýringin, en einnig eru margir "perudanskir" verslunareigendur sem ekki vilja vera með í að skreyta götuna.

Í kvöld erum við að hugsa um að fara á milongu á Norðurbrú. Staðurinn heitir Etnorama og í kvöld leikur gítardúó fyrir dansi.

Sunday, November 20, 2005

Jólatréð í garðinum

Í dag var kveikt á jólatrénu í nýslegna garðinum okkar. Það er ekkert verið að bíða eftir aðventunni með þess háttar. Á eftir fórum við með nágrönnunum í fællesrummet og drukkum jólaglögg og borðuðum eplaskífur o.fl. Mjög huggulegt og ágætt að spjalla örlítið við fólkið. Sumir hafa búið hér síðan húsin nr. 111 og 113 voru byggð árið1979.

Wednesday, November 16, 2005

Fyrsti snjórinn og nýsleginn garður!

Í nótt vöknuðum við upp við haglél sem buldi á þaki og þakgluggum og meðfylgjandi þrumur og eldingar. Um kl 9 um morguninn heyrðum við alla leið upp á 5. hæð skruðninga neðan af götunni. Þegar betur var að gáð sáum við að ung kona á mótorhjóli hafði farið flatt í fyrstu hálkunni. Hljóðið sem við heyrðum var þegar mótorhjólið skrapaði götunna þar til það stöðvaðist á runnanum við húsið okkar. Sem betur fer virtist konan hvorki hafa skaðast mikið né lent á öðrum vegfarendum. Það má teljast mikið lán því að á þessum tíma eru jafnan margir hjólandi og gangandi þarna.

Eftir hádegið fórum við í göngutúr um nágrennið. Ilmur af nýslegnu grasi barst á móti okkur úr garðinum. Fyrir nokkrum dögum höfðum við á orði að það veitti ekki af að slá garðinn, og í morgun var sem sé drifið í því! Sólin hafði brætt snjóföl næturinnar að mestu en á skuggsælum stöðum á leiðinni sáum við ummerkin, haglkúlur sem voru stærri en bláber! Samkvæmt spánni á að vera sólríkt næstu daga en svalara en undanfarið, um 5 gráður.

Tuesday, November 15, 2005

Kosningar

Þá er kosningadagurinn runninn upp. Við Stella stormuðum á kjörstað laust upp úr hádegi og fengum í hendur þá stærstu kjörseðla sem við nokkru sinni höfum séð. Hvort okkar fékk tvo kjörseðla og náði hvor um sig frá gólfi og að mitti. Í kjöri eru 26 listar, hvorki meira né minna. Aðeins 3 bókstafir í danska stafrófinu eru ekki notaðir sem listabókstafir, S, X og W!

Í boði eru m. a. fjórar útgáfur af demókrötum , Sósíal-demókratar, Mið-demókratar, Grænir-demókratar og Kristnir-demókratar. Og þrjár tegundir af þjóðarflokkum, Danski þjóðarflokkurinn, Íhaldsami þjóðarflokkurinn og Sósíalíski þjóðarflokkurinn. Þá er líka hægt að velja Græningjaflokk, Húmanistaflokk, Kommúnistaflokk, Flokk ungra hentistefnumanna og Virka ellilífeyrisþegaflokkinn. Hafi maður ekki enn fundið þann flokk sem styðja skal má benda á Hampflokkinn sem berst fyrir að hass verði leyfilegt, Minnihlutaflokkinn, Ástarflokkinn, Framfaraflokkinn, Velferðarlistann, Kristjaníuflokkinn, Réttarsambandið og Sameiningarflokkinn. Þá eru ótaldir Flokkur litla mannsins, Flokkurinn ókeypis hamingja, Vinir Schillers stofnunarinnar (sem hafa eitt baráttumál, meiri tónlistarkennslu í skólum borgarinnar) og Mobilmast. Síðastnefndi flokkurinn vill láta rífa niður sendimöstur (turna) fyrir gsm-síma samskipti. Svo bjóða einnig fram tveir flokkar sem kenna sig við vinstri en eru hægriflokkar.

Það er því úr mörgu að velja en okkur tókst þó að ákveða okkur og setja kross við einn lista. Nú er bara að bíða úrslitanna.

Sunday, November 13, 2005

Frá Kaupmannahöfn

Það er varla hægt að hrósa okkur fyrir að vera iðin við skriftir á blogginu. Tókum aldrei ákvörðun um framtíð bloggsíðunnar eftir Buenos Aires ferðina. En einhverjir eru með tilvísun á síðuna svo að nú erum við búin að ákveða að skrifa af og til og e.t.v. bregðast við klukki sem við fengum fyrir mánuði!

Við erum í Kaupmannahöfn, komum í júlí og verðum hér í eitt ár. Hér eru sveitarstjórnarkosningar í algleymi, gengið að kjörborði á þriðjudaginn kemur og við uppgötvuðum ekki fyrr en í síðustu viku að við erum með kosningarétt.

Í Kaupmannahöfn er dansaður argentínskur tangó á mörgum stöðum og margir góðir dansarar. Við vorum í Berlín fyrir hálfum mánuði og fórum á tvo tangóstaði, á öðrum var lifandi tónlist. Ekki voru þeir síðri þar.