Sunday, January 29, 2006

Fest på Emdrupvej

Dýralæknirinn hélt veislu hér í gær í tilefni af útskriftinni. Freyja skipulagði, eldaði og bakaði sjálf og foreldrarnir reyndu að aðstoða hana eitthvað við undirbúninginn. Alls mættu um 30 manns og þetta var góð veisla sem stóð frá kl. sex (e.h.) til klukkan rúmlega þrjú um nóttina. Gestirnir komu úr ýmsum áttum frá fjórum löndum, auk Íslendinga og Dana voru Norðmenn og Svíar. "Fællesrummet" reyndist ágætlega sem veislustaður og þegar líða tók á kvöldið sýndu sumir gestanna góða danstakta. Aldursdreifingin var hins vegar ekki mikil því að sennilega voru allir á aldrinum 20 - 30 ára, nema við. En það var gaman að vera með þessu unga fólki.

Sunday, January 15, 2006

Álfar og ...

...nei, nei, hér í Danmörku höfum við ekki orðið vör við trú á álfa né huldufólk, en í sjónvarpinu í gær var fjallað um sérkennilega þjóð sem trúir á bæði álfa og huldufólk. Að minnsta kosti helmingur þjóðarinnar trúir á þessar verur. Það var talað við nokkra, m.a. ráðherra og fyrrverandi forseta, á þessari fámennu en stóru eyju og enginn vildi afneita verunum, segja það vissara að gera ráð fyrir álfum og huldufólki og hefð er fyrir því að forðast að hrófla við bústöðum þeirra. Það hafa sumir farið flatt á því að flytja álfasteina vegna húsbygginga eða vegagerðar. Nöfn eins og Álfhólsvegur og Álfabakki þykja sjálfsögð götuheiti hjá þessari sérkennilegu þjóð.

Tuesday, January 10, 2006

Brandarabann

Fjölskyldan fór í keilu í síðustu viku. Tilefnið var að Freyja var að ljúka síðasta prófinu sínu í dýralæknanáminu. Hún var svo glöð að hún tók því með brosi á vör að pabbi hennar sigraði í keilunni. Daginn eftir fór hún í aðgerð hjá tannlækninum og gat ekki brosað lengur. Af tillitssemi við dýralækninn er því bannað að segja brandara á heimilinu þessa dagana. En brosið verður örugglega komið á sinn stað þann 28. janúar þegar hún heldur upp á útskriftina.

Sunday, January 01, 2006

Áramót


Við skáluðum tvisvar fyrir nýju ári, þ.e. bæði að dönskum og íslenskum tíma. Reyndum að horfa á það besta í sjónvarpsdagskrá beggja landa, misstum reyndar af hluta af áramótaskaupinu vegna áramótanna hér og vegna þess að það var svo gaman að horfa á flugeldana hér. Okkur kom verulega á óvart hvað Danir skjóta miklu upp, þótt þeir slái Íslendingum varla við (a.m.k. ekki miðað við fólksfjölda!). Það byrjaði að snjóa hér á annan í jólum og það hefur verið afskaplega jólalegt um að litast. Við brugðum okkur í Tívolí á afmælinu hans Kristins og það var eins og ganga inn í ævintýraveröld, með nýföllnum snjónum á trjánum og skreytingunum. Við ykkur, sem þetta lesa, viljum við bara segja GLEÐILEGT NÝTT ÁR OG TAKK FYRIR ÞAÐ LIÐNA. Við gerum ráð fyrir að halda áfram að skrifa á síðuna og það er alltaf gaman að fá “comment”.