Tuesday, February 28, 2006

Vandræðanafn


Ég hef heitið Kristinn svo lengi sem ég man og það hefur hingað til ekki valdið mér neinum vandræðum. Fyrir nokkrum árum komst ég þó að því að á erlendri grund gat það valdið misskilningi, a. m. k. í Danmörku. Dönum finnst þetta vera kvenmannsnafn!!!! Þegar ég er í bréfasambandi við einhverja Dani ganga þeir út frá að þeir séu að skrifast á við konu nema ég taki annað fram. Ferðaskrifstofan sem skipuleggur ferðina okkar til Buenos Aires skráði til dæmis hjá sér að við Stella værum tvær frúr á ferðalagi. Þegar ég benti þeim á (bréflega) að ég væri karlmaður lofuðu þau að laga þetta og á næstu pappírum var ég rétt kynjaður. Ekki virðast þau þó hafa verið alveg sannfærð því að þegar ég fékk farmiðann minn í dag stóð MRS Jonsson. Nú veit ég ekki hvort ég á að reyna að sannfæra flugvallarstarfsmenn um að það hafi verið gerð mistök eða að klæða mig sem drag-queen þegar ég mæti á völlinn.

Yfirleitt er ég ekki rengdur þegar ég mæti í eigin persónu og kynni mig, en það gerðist þó í banka hér um daginn. Ég var að borga reikninga og rétti kassadömunni bankakortið. Hún lítur á það og segir svo:

"Og hvem er du så?"
"Jeg er Kristinn," svara ég.
"Nej, det passer ikke min ven, det er et pigenavn".
"Ikke på Island," svaraði ég,

og varð svo að taka hana í tíma í muninum á íslenskum nöfnum og dönskum. Sýnd henni jafnframt íslenskt bankakort með mynd af mér og þá gaf hún sig.

Fyrir tveimur dögum komst ég svo að því að þessi misskilningur einskorðast ekki við Dani (sem eru aðeins 5 milljónir talsins), ég get átt von á því að allur hinn spænskumælandi heimur telji mig bera kvenmannsnafn (300 milljónir). Ég hef verið í tölvusambandi við spænskukennara í Buenos Aires sem ætlar að taka mig tíma þegar ég kem þangað. Í bréf til hennar um helgana laumaði ég því að hvers kyns ég væri og samstundis kom svar frá furðulostinni Carmen - hún stóð í þeirri trú að ég væri kona. Hún hefur þó ekki aflýst tímunum.

Nú er svo komið að ég er að íhuga að breyta nafni mínu í Cristian til að forðast allan misskilning, nema ég sjái að ég geti haft einhver not af svona misskilningi. Ef ykkur sem þetta lesið dettur hug einhverjar aðstæður þar sem misskilningurinn gæti komið sér vel þá látið mig vita.

Set mynd af mér með til að forðast misskilning.

Sunday, February 19, 2006

Vasar og silicon

Við Kristinn fórum í Borups ( skólans hans Jóns) síðdegis á föstudag til að sjá sýningu þar. Á leiðinni út á lestarstöð tók ég eftir því að annar úlpuvasinn minn var óvenju útoðinn, samt var ég með hanskana á höndunum. Ég athugaði málið og í ljós kom að fyrir utan þetta venjulega (s.s. síma, snýtubréf, lestarkort og peningabuddu) hafði þokkalega stór límbandsrúlla á statívi troðið sér í vasann. Fyrst skildi ég ekkert í þessu, en svo rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði notað límbandið daginn áður, til að líma nafnið hennar Freyju á póstkassann okkar. Kristinn tók það ekki í mál að snúa við til að losna við límbandsrúlluna, enda lestin rétt ókomin. Ég gekk bara um með ókennilega bungu á skrýtnum stað í þessari bæjarferð. Daginn eftir labbaði ég inn á hælabarinn rétt við Nørreport og bað um silicon. Maðurinn horfði á mig í dálitla stund og virtist ekki alveg skilja mig. Spurði svo hikandi: " ertu að meina svona til að vatnsverja?"
Að lokum, stuttmyndin hans Jóns sem við sáum á föstudaginn, var góð.

Wednesday, February 15, 2006

Mér varð hugsað heim...

Þegar ég vaknaði í morgun fór um mig hrollur. Það hvein í þakgluggunum og þegar ég leit út sá ég að Kári var á ferðinni og lá á. Þá varð mér hugsað heim!!
Í gær var var rjómablíða, stillt veður og sólskin. Við héldum eitt augnablik að vorið væri komið og skelltum okkur í bæinntil að spássera, léttklæddari en venjulega. En þegar ský dró fyrir sólu kólnaði fljótt og við settumst inn á uppáhaldskaffihúsið hennar Höllu systur, Nazaza Coffee, sem er við Strikið. Ég fékk mér Cortado og lét mig dreyma um að ég væri á Spáni.

Það er vetrarfrí þessa vikuna svo við þurfum ekki að mæta í skólann en sitjum hvort við sína tölvuna og reynum að vinna í þeim verkefnum sem okkur er uppálagt að skila. Við vorum sem sé að fá okkur fartölvu svo nú getum við unnið í tölvum samtímis og tekið pásur saman, sem er ekki verra. Eins gott að nýta þessa daga vel því að um helgina er von á tæplega 35 manna hópi ökukennara frá Íslandi. Þeir ætla reyndar hvorki að vera í fæði hjá okkur né gista en ég býst við að vera að snúast með þeim töluvert bæði á föstudag og laugardag.