Sunday, November 12, 2006

Dans....

Við hjónin vorum á balli í gærkvöldi, ekki tangóballi, heldur bráðfjörugu vetrarballi hjá dansklúbbnum Laufinu. Það eina sem vantaði á fjölbreytnina var argentínskur tangó, en það var þess meira af gömlu dönsunum, tjútti o.s.frv. Hljómsveitin TÍGLAR spilaði af mikilli list og mér sýndist að forstjóri eins stórfyrirtækis ætti tvífara í hljómsveitinni, en það reyndist ekki vera rétt! En við semsagt skemmtum okkur vel og hinir ýmsu dansar rifjuðust upp að einhverju leyti. Við fórum að sofa klukkan að ganga þrjú, en vorum vakin af værum blundi klukkan hálf sjö í morgun af sjálfvirkri blaðberahringingu Morgunblaðsins þ.e. víst erfitt að losna við þessa hringingu þótt blaðburðarferli (sonarins) sé lokið.
Halla... þú hafðir rétt fyrir þér, og í dag dansaði Kristinn um stofuna og stigann, með nýju ryksuguna í fanginu.

Monday, November 06, 2006

TANGO PLUS

Ég þekki snjalla konu sem fær afleysingadömu til að mæta fyrir sig, ef hún kemst ekki í tangótíma með manninum sínum. Ég mæti hins vegar í tangótímana, en er ekki alltaf tilbúin að dansa hér heima á stofugólfinu þegar Kristni dettur það í hug. Í morgun sá ég athyglisverða auglýsingu frá virtu fyrirtæki hér í bæ og fór af stað og keypti rauða glansandi vél: TANGO PLUS .... og nú bíð spennt eftir að eiginmaðurinn svífi með hana um gólfin.