Sunday, July 23, 2006

Heim á leið...

Nú er dótið okkar að mestu komið í kassa eða aðrar umbúðir og fer í gám á morgun, mánudag. Við förum sennilega frá Kaupmannahöfn á miðvikudaginn, gistum eina nótt í Gautaborg hjá Kristínu, en förum síðan á tangóhátíð á Krokstrand sem er nálægt landamærum Svíþjóðar og Noregs. Svo náum við vonandi ferjunni frá Bergen þann 1. ágúst. Nú á að fara að pakka tölvunni niður í kassa svo að það er óvíst með blogg á næstunni.

Tuesday, July 18, 2006

Tangóturninn


Við höfum haldið áfram að leika túrista og brugðum okkur meira að segja til Malmö á sunnudaginn. Jón Kristján og Louisa komu með og við stóðum í þeirri trú að við gætum farið upp í nýja flotta, snúna turninn. En það reyndist misskilningur, í turninum eru bara prívat íbúðir og skrifstofur, ekki möguleiki fyrir forvitna ferðalanga að svindla sér inn. Við urðum bara að láta okkur nægja að horfa á turninn neðan frá. En hann er nú flottur og hægt að sjá tangósveiflu í honum! Baðströndin þarna er frábær og allt var krökkt af sólþyrstu fólki. En sumir voru í öðrum hugleiðingum og tókst að ryðja sér örlítið svæði milli liggjandi fólksins og dansa þar tangó.

Thursday, July 13, 2006

Ochos við olíuljós


Hvað er betra en að vera í sumarfíi hér í Kaupmannahöfn þegar sólin skín? Djasshátíð og góða veðrið setja svip sinn á bæinn þessa dagana. Við njótum þess að vera í fríi og látum sem við sjáum ekki flutningskassana sem standa galtómir og samanbrotnir, upp við vegg í forstofunni.

Við höfum m.a. afrekað að príla upp í turn Frelsarakirkjunnar, tröppurnar eru 400 og þær efstu 150 utanáliggjandi, útsýnið alveg frábært. Kristinn fór í gönguferð um Íslendingaslóðir með öðrum íslenskum túrhestum, undir leiðsögn Guðlaugs Arasonar. Við fórum í dag í könnunarleiðangur (og sólbað) í Amager strandpark og viðruðum bílinn af því tilefni. Flott strönd en við erum sammála um það að halda okkur frekar við ströndina í Carlottenlund, hún er svo heimilisleg og fljótlegt að hjóla þangað.

Við höfum að sjálfsögðu dansað tangó nú sem endranær. Við höfum farið á milongur undir berum himni við Sívalaturn og í Fælledparken. Hellurnar við Sívalaturn eru ansi ójafnar en maður venst ójöfnunum og það er mjög notalegt að dansa á trépallinum í Fælledparken. Kaupmannahafnarborg stendur fyrir milongunni í Fælledparken og henni lýkur kl. 22, þá eru ljósin slökkt og fjarlægð, sem og græjurnar (ekki leyfi fyrir samkundunni eftir það). En áhugasamir tangódansarar voru ekki af baki dottnir í gærkvöldi og einn lagði bara bílnum sínum upp við pallinn, opnaði allar dyr á faratækinu og setti bílgræjurnar á fullt. Það leyndust einnig olíuluktir í skottinu, svo þeim var skellt upp í staðinn fyrir rafmagnsljósin og þar með var hægt að dansa áfram! Við höfum reyndar staðfestan grun um að þessi leikur hafi verið leikinn oft áður.

Friday, July 07, 2006

hitabylgja


Það er engin kuldanepja hér þessa dagana, heldur sólskin og hitinn fer yfir 30 gráður, dag eftir dag. Grasið er orðið gult og fólkið brúnt. Við komum heim í dag úr tveggja sólarhringa sumarbústaðadvöl hjá dönsku vinafólki. Við nýttum tímann vel, fórum með þeim að skoða söfn, (Rudolf Tegners Museum og Knud Rasmussens Hus) og myllur, gamalt klaustur og fleira. Svo gengum við um ströndina og nágrennið auk þess sem við sátum úti við bústaðinn og borðuðum, drukkum og spjölluðum fram á nótt.(Mynd: Peter og Kristinn í Kattegat)