Jóladagsmorgunn
Veðrið er fagurt þennan jóladagsmorgun, kyrrt og sólin skín. Á Hjarðarhaganum byrja jólin þegar kirkjuklukkurnar í Dómkirkjunni hljóma í gegnum útvarpið kl. 18 á aðfangadag. Á Emdrupvej hljómuðu engar kirkjuklukkur heldur litu heimilismenn á veggklukkuna í borðstofunni og sögðu svo hikandi hver við annan, "Nú eru víst jólin komin, gleðileg jól". Enn var klukkustund í að jól hæfust á Íslandi. Klukkan 18 að íslenskum tíma var borðhaldi lokið og sest inn í stofu og þá var kveikt á Rúv og hlustað á dómkirkjuklukkurnar og jólamessuna. Danir taka aðfangadagsköld ekki eins hátíðlega og við. Margt ungt fólk fer í bæinn að skemmta sér og um kvöldið heyrðum við að verið var að sprengja kínverja og skjóta upp flugeldum!