Vandræðanafn

Ég hef heitið Kristinn svo lengi sem ég man og það hefur hingað til ekki valdið mér neinum vandræðum. Fyrir nokkrum árum komst ég þó að því að á erlendri grund gat það valdið misskilningi, a. m. k. í Danmörku. Dönum finnst þetta vera kvenmannsnafn!!!! Þegar ég er í bréfasambandi við einhverja Dani ganga þeir út frá að þeir séu að skrifast á við konu nema ég taki annað fram. Ferðaskrifstofan sem skipuleggur ferðina okkar til Buenos Aires skráði til dæmis hjá sér að við Stella værum tvær frúr á ferðalagi. Þegar ég benti þeim á (bréflega) að ég væri karlmaður lofuðu þau að laga þetta og á næstu pappírum var ég rétt kynjaður. Ekki virðast þau þó hafa verið alveg sannfærð því að þegar ég fékk farmiðann minn í dag stóð MRS Jonsson. Nú veit ég ekki hvort ég á að reyna að sannfæra flugvallarstarfsmenn um að það hafi verið gerð mistök eða að klæða mig sem drag-queen þegar ég mæti á völlinn.
Yfirleitt er ég ekki rengdur þegar ég mæti í eigin persónu og kynni mig, en það gerðist þó í banka hér um daginn. Ég var að borga reikninga og rétti kassadömunni bankakortið. Hún lítur á það og segir svo:
"Og hvem er du så?"
"Jeg er Kristinn," svara ég.
"Nej, det passer ikke min ven, det er et pigenavn".
"Ikke på Island," svaraði ég,
og varð svo að taka hana í tíma í muninum á íslenskum nöfnum og dönskum. Sýnd henni jafnframt íslenskt bankakort með mynd af mér og þá gaf hún sig.
Fyrir tveimur dögum komst ég svo að því að þessi misskilningur einskorðast ekki við Dani (sem eru aðeins 5 milljónir talsins), ég get átt von á því að allur hinn spænskumælandi heimur telji mig bera kvenmannsnafn (300 milljónir). Ég hef verið í tölvusambandi við spænskukennara í Buenos Aires sem ætlar að taka mig tíma þegar ég kem þangað. Í bréf til hennar um helgana laumaði ég því að hvers kyns ég væri og samstundis kom svar frá furðulostinni Carmen - hún stóð í þeirri trú að ég væri kona. Hún hefur þó ekki aflýst tímunum.
Nú er svo komið að ég er að íhuga að breyta nafni mínu í Cristian til að forðast allan misskilning, nema ég sjái að ég geti haft einhver not af svona misskilningi. Ef ykkur sem þetta lesið dettur hug einhverjar aðstæður þar sem misskilningurinn gæti komið sér vel þá látið mig vita.
Set mynd af mér með til að forðast misskilning.