
Hvað er betra en að vera í sumarfíi hér í Kaupmannahöfn þegar sólin skín? Djasshátíð og góða veðrið setja svip sinn á bæinn þessa dagana. Við njótum þess að vera í fríi og látum sem við sjáum ekki flutningskassana sem standa galtómir og samanbrotnir, upp við vegg í forstofunni.
Við höfum m.a. afrekað að príla upp í turn Frelsarakirkjunnar, tröppurnar eru 400 og þær efstu 150 utanáliggjandi, útsýnið alveg frábært. Kristinn fór í gönguferð um Íslendingaslóðir með öðrum íslenskum túrhestum, undir leiðsögn Guðlaugs Arasonar. Við fórum í dag í könnunarleiðangur (og sólbað) í Amager strandpark og viðruðum bílinn af því tilefni. Flott strönd en við erum sammála um það að halda okkur frekar við ströndina í Carlottenlund, hún er svo heimilisleg og fljótlegt að hjóla þangað.
Við höfum að sjálfsögðu dansað tangó nú sem endranær. Við höfum farið á milongur undir berum himni við Sívalaturn og í Fælledparken. Hellurnar við Sívalaturn eru ansi ójafnar en maður venst ójöfnunum og það er mjög notalegt að dansa á trépallinum í Fælledparken. Kaupmannahafnarborg stendur fyrir milongunni í Fælledparken og henni lýkur kl. 22, þá eru ljósin slökkt og fjarlægð, sem og græjurnar (ekki leyfi fyrir samkundunni eftir það). En áhugasamir tangódansarar voru ekki af baki dottnir í gærkvöldi og einn lagði bara bílnum sínum upp við pallinn, opnaði allar dyr á faratækinu og setti bílgræjurnar á fullt. Það leyndust einnig olíuluktir í skottinu, svo þeim var skellt upp í staðinn fyrir rafmagnsljósin og þar með var hægt að dansa áfram! Við höfum reyndar staðfestan grun um að þessi leikur hafi verið leikinn oft áður.